

Það er algjörlega ógleymanleg upplifun að heimsækja þá fjölmörgu hraunhella sem hafa myndast á Íslandi í gegnum aldirnar og eru hraunhellar á Gullna hringnum óviðjafnanlegir fyrir margra hluta sakir.
Hraunhellar myndast við eldgos, sem nóg hefur verið af hér á landi, og geyma þessir undursamlegu leynistaðir aragrúa af jarðfræðilegum fróðleik, dulúð, svo ekki sé minnst á náttúrufegurð. Inni í hraunhellunum sést greinilega hvernig nýtt land hefur mótast og sýnir og sannar hversu kyngimögnuð náttúruöflin eru.
Hellaferðir með leiðsögumönnum á Íslandi hafa notið síaukinna vinsælda undanfarin ár meðal erlendra ferðamanna og er ekkert lát þar á. Útlendingar sem sækja landið heim setja hellaferðir oftar en ekki ofarlega á listann sinn yfir ævintýri sem þá langar að upplifa og þar koma hraunhellar á Gullna hringnum sterkir inn. Við heimamenn höfum hins vegar ekki síður gaman að því að upplifa landið okkar á þennan hátt og getur hellaferð bætt skemmtilegu kryddi í sumarfríið fyrir jafnt unga sem aldna.
Hraunhellar á Gullna hringnum njóta sífellt meiri vinsælda en við leggjum metnað í að stilla ferðum í hóf til að leggja okkar lóð á vogarskálina í varðveislu hellanna og lágmarka átroðning. Við bjóðum upp á ýmsar hellaferðir í hraunhella í þjóðgarðinum okkar að Þingvöllum. Hóparnir okkar eru fámennir sem gefur leiðsögumönnunum okkar góðan tíma til að svala forvitni allra og sjá til þess að ferðin verði eftirminnileg. Við gefum okkur góðan tíma í ferðunum til að tryggja að asi og stress skemmi ekki fyrir.
Hellaferðirnar eru miskrefjandi, þar sem engir tveir hellar eru eins. Því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Þeir sem treysta sér ekki í mikinn hasar og brölt geta til dæmis komið með okkur í Gjábakkahelli, sem einnig gengur undir nöfnunum Helguhellir og Stelpuhellir. Hellirinn er 364 metra langur og myndaðist fyrir um níu þúsund árum síðan. Gjábakkahellir er ósnortinn hellir. Þar er hátt til lofts og vítt á milli veggja. Hellirinn er hins vegar stórgrýttur og því seinn yfirferðar, sem þýðir einfaldlega að það gefst meiri tími til að dást að grjótmynduninni í allri sinni dýrð.
Þeir sem vilja reyna aðeins meira á sig koma með okkur í Litla Björn, lengsta helli á Þingvallasvæðinu þrátt fyrir að nafnið gefi annað til kynna. Litli Björn er einstakur hraunhellir á Gullna hringnum, 550 metrar að lengd og verður svo þröngur þegar að lengra líður á gönguna að nauðsynlegt er að skríða lokaspölinn. Litli Björn er hins vegar ekki eins stórgrýttur og Gjábakkahellir og því einfaldari yfirferðar að því leiti.
Loks ber að nefna Tintron í Gjábakkahrauni, hyldjúpan hraunhelli sem líklegast hefur myndast við mjög heitt gufuuppstreymi. Í þeirri ferð er sigið þrettán metra lóðrétt ofan í jörðina þar til botni hellisins er náð. Ofan í hellinum geta gestir spreytt sig á klettaklifri og síðan er notast við sérhannaðan kaðalstiga til að komast aftur upp. Það þarf vart að taka fram að fyllsta öryggis er ávallt gætt, í Tintron sem og öðrum hellum.
Hraunhellar á Gullna hringnum mynda algjöra undraveröld fyrir fólk á öllum aldri. Við Íslendingar erum svo heppnir að eiga ósnerta og undurfallega náttúru hvert sem litið er. Í hellaferðum fáum við tækifæri til að tengjast náttúrunni, en um leið upplifa sögu landsins á algjörlega nýjan hátt.
Eina sem þarf eru góðir gönguskór – við sjáum um rest og tryggjum að dagurinn lifi lengi í minningunni.